Innlent

Guðbjartur Hannesson: Það lifir enginn á lágmarkslaunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson.

Það lifir enginn á lágmarkslaunum á Íslandi segir Guðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra. Hann segir nauðsynlegt að hækka lægstu laun til að fólk hafi einhvern hvata af því að vinna frekar en að þiggja bætur.

Lágmarkslaun fyrir fulla vinnu á Íslandi eru 165 þúsund krónur.

Eins og fram hefur komið í fréttum stöðvar tvö er í raun hagstæðara fyrir fólk að þiggja einungis bætur í stað þess að vera á vinnumarkaði á lágmarkslaunum.

Félagsmálaráðherra segir það vera áhyggjuefni að fólk hafi meiri hvata af því að þiggja bætur heldur en vinna.

„Það er alveg klárt að það þarf að fara yfir þessi atriði. Þetta kom strax upp þegar menn settu lágmarkstekjur til öryrkja í kringum 180 þúsund brúttó. Þá fóru menn upp fyrir bæði atvinnuleysisbætur og lágmarkslaunin. Þetta eru bara ákveðin skilaboð að við viljum búa betur að þessum bótaþegum en síðan verður atvinnumarkaðurinn að taka á því að tryggja að lágmarkslaunin fari upp líka," segir Guðbjartur.

Spurður hvort það verði sem sagt að hækka lágmarkslaunin svarar Guðbjartur: „Að mínu mati er það þannig. ég held að það sé ómögulegt að menn séu að lifa hérna á 160 til 170 þúsund krónum í laun. Menn verða að tryggja það að það sé að minnsta kosti enginn að vinna á þeim kjörum."

Sérstakur hópur á vegum ráðuneytisins vinnur nú að því að skilgreina lágmarksframfærslu á Íslandi. Von er á niðurstöðum í lok næsta mánaðar.

„Allavega við núverandi aðstæður getum við sagt það að fólk sem er með mikið minna en 160 þúsund í brúttó laun það getur ekki lifað af því þannig að við þurfum auðvitað að skoða þetta heildstætt og tryggja að fólk geti lifað af bæði launum og bótum," segir Guðbjartur að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×