Skoðun

Yfirlýsing iðnaðarráðherra

Jón Gunnarsson skrifar
Jón Gunnarsson skrifar um atvinnumál

Í þættinum Á Sprengisandi á sunnudag staðfesti iðnaðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir, að flótti væri brostinn í þá erlendu aðila sem iðnaðarráðuneytið hefur rætt við um fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Hún hefur á liðnum mánuðum gumað að því í umræðum á Alþingi að horfur væru bjartar í íslensku atvinnulífi og árangur af vinnu ráðuneytisins væri handan við hornið.

Þessa stöðu skýrir ráðherrann með þeirri óvissu sem Icesave-málið veldur í íslensku efnahagslífi. Sú afstaða ber vott um grunnhyggni. Það er alvarlegt ef ráðherra gerir sér ekki grein fyrir því að ástæðan liggur í þeim skilaboðum sem ríkisstjórnin sendir atvinnulífinu og þeim aðilum sem hafa litið til Íslands sem mögulegan stað fyrir atvinnustarfsemi sína. Á þetta hefur ítrekað verið bent á undanfarna mánuði og virðist ráðherrann ekki hafa skilið alvarleika málsins.

Þannig hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar verið iðnir við að leggja stein í götu orkufreks iðnaðar og er þar skemmst að minnast ákvarðana umhverfisráðherra vegna álvers á Bakka og lagningu suðurlínu vegna álvers í Helguvík. Þá voru samfylkingarmenn í Hafnarfirði í forystu fyrir því að stöðva stækkun álversins í Straumsvík. Nýjustu útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum þar sem sérstök áhersla er lögð á aukna skatta á atvinnulíf er sennilega alvarlegasta aðförin að eflingu atvinnulífs sem hún hefur gert fram að þessu.

Forskot okkar hefur m.a. legið í traustri stjórnsýslu og þjóðfélagsgerð. Aðgerðir stjórnvalda virðast miða að því að eyðileggja þann góða árangur sem náðst hefur. Yfirlýsing iðnaðarráðherra sýnir að Ísland er ekki lengur sá áhugaverði valkostur til uppbyggingar atvinnustarfsemi sem áður var.

Icesave-málið er eitt það alvarlegasta sem við höfum staðið frammi fyrir sem þjóð. En þessar fréttir iðnaðarráðherra staðfesta að atvinnustefna stjórnvalda hefur beðið hnekki. Það er eitthvað sem við megum ekki við og ef það er staðreynd að stjórnvöld gera sér ekki grein fyrir hvað veldur, verður skaðinn enn meiri en orðinn er. Í málefnum atvinnulífsins sem og í Icesave-málinu verður þessi ríkisstjórn að gera sér grein fyrir fyrirsjáanlegu skipbroti sínu og leiðrétta kúrsinn ef ekki á að fara enn verr.

Höfundur er alþingismaður.Tengd skjöl
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.