Enski boltinn

Gold harmar að hafa klagað Fulham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Gold.
David Gold. Nordic Photos / Getty Images

David Gold, einn eiganda West Ham, segist sjá eftir því í dag að hafa kvartað yfir Fulham í mars síðastliðnum.

Roy Hodgson, stjóri Fulham, ákvað að hvíla marga lykilmenn þegar liðið mætti Hull í ensku úrvalsdeildinni þar sem Fulham átti mikilvægan leik fyrir höndum gegn Wolfsburg í Evrópudeildinni.

Hull vann leikinn, 2-0, og nældi sér þar með í þrjú mikilvæg stig í fallbaráttu deildarinnar. Hull er þó nánast fallið úr deildinni í dag og West Ham sömuleiðis nánast öruggt með sæti sitt.

En West Ham kvartaði yfir ákvörðun Hodgson að hvíla sína mikilvægustu leikmenn í áðurnefndum leik.

„Ég held að við vorum í uppnámi á þessum tíma og brugðumst of harkalega við," sagði Gold. „Það er mjög erfitt að staða West Ham hafi verið svona slæm og við létum það hafa áhrif á okkur."

West Ham og Fulham eigast einmitt við um helgina og segist Gold skilja nú vel ákvörðun Hogdson.

„Ég hefði gert það nákvæmlega sama. Ég hefði í hans sporum stillt upp kvennaliði félagsins," sagði Gold sem hefur ekki alltaf verið þekktur fyrir að tala af skynsemi í fjölmiðlum í gegnum tíðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×