Enski boltinn

Grant gripinn glóðvolgur á „nuddstofu“

Ómar Þorgeirsson skrifar
Avram Grant.
Avram Grant. Nordic photos/AFP

Knattspyrnustjórinn Avram Grant hjá Portsmouth hefur staðið í ströngu, bæði innan vallar sem utan, síðan hann var ráðinn til félagsins.

Portsmouth situr sem fastast á botni deildarinnar og fjárhagsvandræði félagsins virðast engan endi ætla að taka.

Grant hefur harðlega gagnrýnt forráðamenn félagsins fyrir svikin loforð en Grant sá aftur á móti sjálfur um að grípa fyrirsagnirnar í breskum fjölmiðlum í dag.

Slúðurblaðið The Sun nafngreindi knattspyrnustjórann í tengslum við nuddstofu í Southampton á Englandi sem blaðið fullyrðir að sé ekkert annað en vændishús.

The Sun birti fyrst fréttir í desember af heimsókn ónefnds knattspyrnustjóra í ensku úrvalsdeildinni þangað en ákvað þá að nafngreina hann ekki.

Í kjölfarið á því að slúðurblaðið News of the World vann kærumál sem John Terry höfðaði á hendur blaðinu þá ákvað The Sun að ganga alla leið og greina frá því að umræddur knattspyrnustjóri hafi í raun verið Grant.

Lögreglan í Southampton mun vera að rannsaka starfsemi „nuddstofunnar" og gæti því þurft að yfirheyra Grant vegna málsins en ljóst þykir að hann hafi nú þegar í nógu að snúast við að reyna að hjálpa Portsmouth að rétta úr kútnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×