Innlent

Jónína Ben: Oddviti framsóknarmanna á að víkja

Athafnakonan Jónína Benediktsdóttir vill að Einar Skúlason, oddviti framsóknarmanna í Reykjavík, víki af listanum líkt og Guðrún Valdimarsdóttir hefur gert. Jónína krefur Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann flokksins, um skýringar á brotthvarfinu, en sjálf skipar hún 15. sæti listans.

Guðrún, sem skipaði annað sætið á lista framsóknarmanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, hefur ákveðið að verða við ósk oddvita flokksins og víkja af listanum. Hún hefur einnig sagt af sér sem formaður Félags framsóknarkvenna í Reykjavík.

Guðrún segir að ástæðan sé sögð sú, að hún greindi frá því að fyrirtæki, sem eiginmaður hennar eigi hlut í, hafi meðal margra verið nefnt í skýrslu Rannsóknanefndar Alþingis. Viðbrögðin sýni að greinilegt sé að gamla eignarhaldsfélag flokksins í Reykjavík, sem beið lægri hlut í prófkjörinu í nóvember, ætli ekki að una sé hvíldar fyrr en það nær völdum á ný.

Frambærilegasti frambjóðandinn

„Guðrún var frambærilegasti einstaklingurinn á listanum. Það er ekki synd að vera gift manni í viðskiptum," segir Jónína á Facebook-síðu sinni. Einar hefði átt að standa með Guðrúnu gegn gamla flokkseigendafélaginu, eins og og hún orðar það.

„Óskar og hans menn eiga bara að halda áfram með sýnar aðferðir. Það verður engu breytt," segir Jónína og vísar þar til Óskars Bergssonar núverandi borgafulltrúa flokksins sem beið lægri hluti fyrir Einari í baráttu um oddvitasætið í nóvember.

„Svara þú Sigmundur"

Þá krefur Jónína Sigmund Davíð um skýringar. „Guðrún er heil og sönn manneskja og nú þarf formaður flokksins að útskýra þessa afstöðu þess arms flokksins sem lagðist gegn Guðrúnu. Ég bíð spennt að heyra hvað það er sem þeir eru að gagnrýna. Er hún og við sem að baki henni stöndum ógn við spilltu öflin ? Svara þú Einar og svara þú Sigmundur. Hvers vegna var Guðrún beðin um að hætta?"




Tengdar fréttir

Víkur af lista framsóknarmanna

Guðrún Valdimarsdóttir, sem skipaði annað sætið á lista framsóknarmanna fyrir komandi borgarstjórnarkosningar hefur ákveðið að verða við ósk oddvita flokksins og víkja af listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×