Innlent

Dyngja í líkingu við Skjaldbreið gæti hlaðist upp

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi verður annaðhvort lítið og stutt hraungos eða þá dyngjugos, sem stendur árum saman og hleður upp myndarlegri dyngju í líkingu við Skjaldbreið. Þetta er mat Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings.

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur fylgst grannt með gangi mála á Fimmvörðuhálsi en hann er kunnastur núlifandi íslenskra jarðvísindamanna á alþjóðavettvangi. Í grein á heimasíðu sinni nefnir hann tvo möguleika um framtíð gossins, sem hann álítur jafn líklega og segir ekki hægt að velja þar á milli á þessu stigi.

Annar sé sá að gosið endi fljótt og myndi þá fremur lítið hraun eins og eldri hraungos á hálsinum. Hinn möguleikinn sé sá að gosið haldi áfram og hlaði þá upp myndarlegri nýrri dyngju, í líkingu við Skjaldbreið, norðan Þingvalla. Í samtali við Stöð 2 bendir Haraldur á að kvikan á Fimmvörðuhálsi sé komin af 20-25 kílómetra dýpi en það sé einkenni dyngjugosa. Hann segir að kvikan sé mjög lík þeirri sem kom upp í Surtseyjargosinu en því hafi verið haldið fram að Surtsey væri dyngjugos.

Ef Surtsey hefði gosið á landi, þá hefði gosið sennilega hlaðið upp dæmigerðri dyngju, segir Haraldur og lýkur grein sinni með því að framhaldið á Fimmvörðuhálsi haldi áfram að vera mjög spennandi.

Því má svo velta upp að ef þarna hleðst upp stór hraundyngja á næstu árum hvað verður þá um Goðaland og Þórsmörk?












Fleiri fréttir

Sjá meira


×