Innlent

Niinistö: Vaxtakröfur Breta og Hollendinga allt of háar

Sauli Niinistö segir Breta og Hollendinga heimta allt of háa vexti.
Sauli Niinistö segir Breta og Hollendinga heimta allt of háa vexti.

Heimir Már Pétursson skrifar frá Finnlandi:

Sauli Niinistö, forseti finnska þingsins segir að Bretar og Hollendirngar fari fram á allt of háa vexti af Íslendingum vegna Icesave. Það verði hinsvegar ekki gott fyrir Íslendinga að verða fyrsta þjóðin á vesturlöndum sem stendur ekki við skuldbindingar sínar.

Niinistö, sem margir telja að verði næsti forseti Finnlands eftir frosetakosningarnar 2012 sat fyrir svörum norrænna fréttamanna í þinginu í dag. Þegar hann var spurður um afstöðu finnsku ríkisstjórnarinnar til Icesave deilunnar á milli Íslendinga og Breta og Hollendinga sagði hann þá fara fram á allt of háa vexti af Íslendingum. Bretar og Hollendingar yrðu að semja um betri kjör við Íslendinga. Hann minnti hins vegar á að Finnland hefði verið eina landið á vesturlöndum sem greiddi stríðsskaðabætur sínar eftir seinni heimstyrjöldina að fullu. Þótt það hafi reynst Finnum erfitt hafi það skapað þeim virðingu á meðal annara þjóða.

Án þess að leggja nokkuð mat á málið að örðu leyti teldi hann að það yrði ekki gott fyrir Íslendinga að verða fyrsta þjóðin á vesturlöndum sem stæði ekki við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Hann sagði finnsk stjórnvöld og Finna almennt standa með Íslendingum í þeim vanda sem nú steðji að og að það væri ánægjulegt og mikilvægt að Íslendingar væru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×