Á fundi framkvæmdastjórnar UEFA í gær var ákveðið að úrslitakeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta fari fram í Svíþjóð árið 2013 en þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnusambandsins.
Valið stóð á milli Svíþjóðar og Hollands. Einnig var ákveðið að fjöldi þátttökuþjóða í úrslitakeppninni yrði áfram tólf þjóðir en til greina kom að breyta keppninni í sextán þjóða keppni.
Dregið verður í riðla í undankeppninni í mars á næsta ári. Síðasta úrslitakeppni EM kvenna fór fram, sem kunnugt er, í Finnlandi og var Ísland þar á meðal þátttakenda í fyrsta sinn.

