Innlent

Ekki hægt að safna upp skuldum

Leifur A. Haraldsson
Leifur A. Haraldsson
Fyrirtækið Kredia, sem veitir svokölluð sms-smálán, rekur ábyrga lánastarfsemi þar sem fólk getur ekki safnað upp skuldum, segir Leifur A. Haraldsson, framkvæmdastjóri Kredia.

Fyrirtækið veitir lán til fimmtán daga þeim sem skrá sig á heimasíðu fyrirtækisins, og senda svo sms til að fá lánið. Fyrsta lán er aldrei hærra en 10 þúsund krónur, með 2.500 króna kostnaði, og hæsta mögulega lánið 40 þúsund krónur, með 9.250 króna kostnaði. Ekki er hægt að fá nýtt lán fyrr en fyrra lán hefur verið greitt upp.

Fyrirkomulag sms-lánanna hefur verið gagnrýnt harðlega, og hafa Neytendasamtökin óskað eftir því að viðskiptaráðherra kanni hvort hægt sé að koma í veg fyrir slíka lánastarfsemi hér á landi.

Leifur segir alla umræðu um að hægt sé að steypa sér í skuldir með sms-lánum vekja furðu. Ekki sé hægt að skulda fyrirtækinu meira en 49.511 krónur með kostnaði. Við það bætist þó innheimtukostnaður sé skuldin ekki greidd á réttum tíma.

Ekki fæst upp gefið hversu margir hafa tekið lán frá fyrirtækinu, né hversu mörg tilvik hafi farið í löginnheimtu. Leifur segir lánin vinsæl og mjög lágt hlutfall hafi farið í innheimtu.

Kredia kynnti starfsemi sína á fundi með fulltrúum Neytendastofu og Fjármálaeftirlitsins í nóvember í fyrra. Á þeim fundi kom fram að starfsemin sé samkvæmt lögum og uppfyllii allar kröfur sem lagðar eru á starfsemi af þessu tagi, segir Leifur.- bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×