Innlent

„Ég brást“

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, tók óvænt til máls á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. Hún sagði sagðist ekki horfa yfir sviðið af miklu stolti. Margt hafi mistekist í stefnu Samfylkingarinnar. Eftir að hafa lokið máli sínu táraðist Ingibjörg.

Samfylkingin boðaði til flokksstjórnarfundar í Garðabæ í dag til að fjalla um niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ingibjörg sagðist hafa brugðist kjósendum, flokksmönnum og sjálfri sér.

„Stjórnarsamstarfið hafði heldur ekki burði til að taka á vanhæfu stjórnkerfi þar sem aðskilnaðurinn milli stjórnmála og stjórnsýslu var löngu horfinn.Við slíkar aðstæður er voðinn vís. Þetta átti ég, með mína reynslu úr borginni, að vita," sagði Ingibjörg.

Hún velti því fyrir sér eftir bankahrunið og eftir brothvarf hennar úr stjórnmálum hvort pólitískt framlag hennar hafi skipt einhverju máli. „Já, í einlægni sagt þá held ég það. Mér finnst ég ekki hafa til einskis starfað í stjórnmálum þó auðvitað verði mitt streð eins og annarra lagt í dóm sögunnar þegar fram líða stundir."

Ingibjörg sagðist vera fullviss um Samfylkingin muni draga rétta lærdóma af rannsóknarskýrslunni og halda ótrauð áfram.

Þá sagðist Ingibjörg hverfa léttstíg af fundinum á vit hins kalda en fallega vors svo að fundarmenn gætu haldið vinnunni og uppgjörinu áfram án hennar nærværu og vísaði til þeirrar vinnu sem Samfylkingin þyrfti að fara í.

Því næst steig Ingibjörg úr pontu við dynjandi lófatak allra viðstaddra. Þá brotnaði hún saman, táraðist og faðmaði eiginmann sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×