Innlent

Þjálfa einhverfa einstaklinga til hugbúnaðarprófana

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fólk með einhverfu hefur marga eiginleika sem henta vel til hugbúnaðaprófana. Mynd/ GVA.
Fólk með einhverfu hefur marga eiginleika sem henta vel til hugbúnaðaprófana. Mynd/ GVA.
Allt að átján íslenskir einstaklingar með einhverfu verða þjálfaðir til starfa við hugbúnaðarprófanir á Íslandi á hverju ári hér eftir. Það eru Sérfræðingarnir, sem er sjálfseignastofnun nátengd Umsjónarfélagi einhverfra, sem sér um verkefnið.

Fram kemur á vefnum New Europe að verkefnið byggi að danskri fyrirmynd en þar hefur fólk með einhverfu unnið að hugbúnaðarprófunum fyrir fyrirtæki á borð við Microsoft, Oracle, Cisco og Lego. Hjörtur Grétarsson, stjórnarformaður Sérfræðinganna, segir að gert sé ráð fyrir að þjálfun fyrstu einstaklinganna hefjist fyrir jól.

„Markmiðið með þessu er að hægt sé að líta á styrkleikana sem tengjast einhverfu en ekki að líta á hana sem fötlun," segir Hjörtur í samtali við Vísi. Fólk með einhverfu hafi ýmsa styrkleika sem nýtist við hugbúnaðarprófanir. Til dæmis geti þeir einbeitt sér óvenju lengi að sama verkefninu og leggi mikla áherslu á það að hlutirnir séu í röð og reglu. Hjörtur segir að verkefnið hér heima verði unnið í tengslum við þekkt tölvufyrirtæki og nefnir Skýrr sem dæmi.

Að sögn Hjartar er verkefni Sérfræðinganna hugsað til langs tíma. Gert er ráð fyrir að fyrst verði 14 - 18 einstaklingar teknir inn en síðar meir verði þeir um 10-15.

Verkefni Sérfræðinganna er unnið í samstarfi við Þjónustumiðstöð Laugardals og og Háaleitis, en einnig hafa viðræður staðið yfir við Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík og fleiri. Verkefnið er styrkt af Lenonardo menntaáætlun Evrópusambandsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×