Innlent

Ráðuneytið segir að klofningur í afstöðu til ESB hafi komið á óvart

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jón Bjarnason tók á móti Evrópuþingmönnum í gær. Mynd/ GVA.
Jón Bjarnason tók á móti Evrópuþingmönnum í gær. Mynd/ GVA.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók í gær á móti hópi fyrrverandi Evrópuþingmanna frá samtökunum European Parliament Former Members Association.

Pat Cox frá Írlandi fór fyrir hópnum en meðal gesta voru fyrrum þingmenn frá mörgum ESB-ríkjum, alls 25 manns. Þær upplýsingar að mjög skiptar skoðanir væru bæði innan ríkisstjórnar og Alþingis um aðildarumsóknina komu sumum gestanna mjög á óvart. Þeir spurðu mikið út í það hvernig hægt væri að vinna að aðildarsamningi við slíkar kringumstæður.

Á fundinum fór Jón Bjarnason yfir þá málaflokka sem heyra undir hans ráðuneyti og ræddi m.a. afstöðu sjávarútvegs og landbúnaðar til þeirra viðræðna sem nú eiga sér stað um hugsanlega ESB aðild Íslands. Þá greindi ráðherra frá afstöðu sinni og síns flokks til málsins, samkvæmt tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Jón Bjarnason ítrekaði að það væri Alþingi sem hefði samþykkt að senda inn umsókn um aðild að ESB og jafnframt sett mjög skýrar línur um þær umræður og meginhagsmuni Íslands. Ekki mætti víkja frá þeirri stefnu nema með samþykki Alþingis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×