Innlent

Níu manns í haldi vegna aðgerða lögreglu

Mynd/GVA
Átta kíló af hvítum efnum og meira en fjögur þúsund e-töflur hafa náðst í aðgerðum lögreglu gegn fíkniefnasmyglurum undanfarnar vikur. Níu manns eru í haldi vegna þessara aðgerða.

Um fjögur aðskilin mál er að ræða. Rúmenskur karlmaður og meintur vitorðsmaður hans eru í haldi eftir að Rúmeninn var tekinn á Leifsstöð með hálft kíló af kókaíni. Hann var að koma frá Kaupmannahöfn.

Þrír Litháar, tveir karlar og ein kona, eru í haldi eftir að þrjú kíló af metamfetamíni og 4.200 e-töflur fundust í bíl sem var á leiðinni til landsins með Norrænu. Tveir Litháar til viðbótar er í haldi í Færeyjum en Europol hefur aðstoðað Íslendinga við rannsóknina,

Þá eru tveir Íslendingar í haldi eftir annar þeirra var tekinn með fjögur kíló af amfetamíni við komuna til landsins. Hann var að koma frá Berlín. Þegar hann var handtekinn vísaði hann á meintan vitorðsmann sem náðist skömmu síðar.

Að lokum er svo erlendur karlmaður á fimmtugsaldri og íslensk kona á þrítugsaldri í haldi en þau voru tekin þegar þau voru að koma með flugi frá Bandaríkjunum. Í fórum þeirra fundust 800 grömm af kókaíni. Þau hafa ekki áður komið við sögu hjá lögreglu.

Málin fjögur eru til rannsóknar hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum hins vegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×