Fótbolti

Norska landsliðið á að vera betra en það íslenska

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Egil Drillo Olsen, landsliðsþjálfari Noregs.
Egil Drillo Olsen, landsliðsþjálfari Noregs. Mynd/Anton

Fjölmargir norskir sparkspekingar hafa velt vöngum yfir leik Íslands og Noregs í undankeppni EM 2012 í kvöld. Flestir eru á þeirri skoðun að Noregur eigi að vinna leikinn í kvöld.

Esten O. Sæther skrifar pistil í Dagbladet í dag þar sem hann segist ekki skilja þá sem segja að norska liðsins bíði erfitt og krefjandi á Íslandi í kvöld.

Þá sé betra að vera heiðarlegur: „Norskur landsliðsfóbolti er án nokkurs vafa betri en íslenskur," skrifar hann.

Egil Olsen, landsliðsþjálfari Noregs, hrósaði Íslendingum í viðtali í vikunni og sagði Ísland merkustu íþróttaþjóð Evrópu. Sæther segir að það beri að viðurkenna að íþróttauppeldi á Íslandi hafi verið vel sinnt enda sé liðið með handboltalandslið í fremstu röð í heiminum og fjölda atvinnumanna í knattspyrnu.

„En á sama tíma þarf að horfa á þessi afrek í réttu ljósi. Á alþjóðlegum vettvangi er handbolti íþrótt þar sem leiðin upp á toppinn er mun styttri en í knattspyrnunni. Og í knattspyrnunni tilheyrir Ísland þeim sem ekki ná árangri þrátt fyrir að eiga stórar stjörnur. Karlalandsliðið hefur aldrei tekið þátt í úrslitakeppni stórmóts."

„Í riðli okkar í síðustu undankeppni varð Ísland í neðsta sæti. Á styrkleikalista FIFA er liðið í 79. sæti en Noregur þrátt fyrir allt í 22. sæti."

Sæther bendir enn fremur á að það hafi verið Eiður Smári Guðjohnsen sem hafi fyrst og fremst valdið norsku vörninni usla síðast þegar þessi lið mættust fyrir ári síðan. Nú er hann ekki með og þá skipti mestu máli fyrir norsku landsliðsmennina að sýna muninn sem á að ríkja á milli liðanna og að fara ekki á taugum við að leysa það verkefni.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×