Innlent

Enn skvettist úr einum gíg

Einn gígur er enn opinn og þar sést í logandi kviku og skvettist upp úr honum.
Einn gígur er enn opinn og þar sést í logandi kviku og skvettist upp úr honum. MYND/Jón Kjartan Björnsson.

Fregnir af endalokum eldgossins á Fimmvörðuhálsi virðast ótímabærar, að minnsta kosti að sinni. Einn gígur er enn opinn og þar sést í logandi kviku og skvettist upp úr honum, að sögn Jóns Kjartans Björnssonar, þyrluflugmanns hjá Norðurflugi, sem flaug yfir eldstöðina um ellefuleytið í morgun.

"Hrauntjörn sést í einum litlum gíg. Það svona rétt bubblar í þessu, skvettist kannski 2-3 metra upp," segir Jón Kjartan. Hann segir ekkert hraun renna frá gígnum. Þá rýkur víða úr hrauninu.

Gosórói á mælum Veðurstofunnar féll niður um miðjan dag í gær og var það túlkað þannig að þá hafi hætt að gjósa. Breytingar á GPS mælum, sem fram komu á föstudag og laugardag, benda til minnkandi spennu undir Eyjafjallajökli, sem styður það að komið sé að lokum eldgossins. Það hófst fyrir laust fyrir miðnætti laugardagskvöldið 20. mars, og hefur þannig staðið í þrjár vikur.

Meðfylgjandi mynd tók Jón Kjartan þyrluflugmaður um kl. 11 í morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×