Innlent

Stjórnin heldur meirihluta

Stjórnarflokkarnir mælast með stuðning samtals 53,2 kjósenda samkvæmt nýrri könnun Fréttablaðsins. Vinstri græn bæta við sig rúmum fjórðungi og tveimur þingmönnum, en fylgi við Samfylkinguna dregst saman og flokkurinn myndi missa tvo þingmenn samkvæmt könnuninni.

Vinstri græn mælast með 24,6 prósenta fylgi og 16 þingmenn samkvæmt könnun Fréttablaðsins. Það er stökk upp um 5,4 prósentustig frá síðustu könnun, sem gerð var í október síðastliðnum. Í kosningum fékk flokkurinn stuðning 21,7 prósenta kjósenda og er því talsvert yfir kjörfylgi.

Samfylkingin fær stuðning 28,7 prósent kjósenda og 18 þingmenn kjörna samkvæmt könnun Fréttablaðsins, sem unnin var í gærkvöldi. Í síðustu könnun blaðsins naut flokkurinn fylgis 30,8 prósenta aðspurðra.

Fylgi við Sjálfstæðisflokkinn lækkar umtalsvert frá síðustu könnun. Alls sagðist 31,1 prósent myndi styðja flokkinn yrði kosið nú, en 34,8 prósent sögðust styðja flokkinn í könnun í október.

Litlar breytingar hafa orðið á fylgi Framsóknarflokksins. Flokkurinn mælist nú með 13,7 prósenta stuðning og níu þingmenn kjörna, en 14,1 prósents fylgi í síðustu könnun.

Hreyfingin fjórfaldar fylgi sitt milli kannana, og mælist með stuðning 1,6 prósenta kjósenda nú og engan mann kjörinn, en 0,4 prósent aðspurðra sögðust styðja flokkinn í október. Breytingarnar eru þó innan skekkjumarka.

Mikill munur er á stuðningi við fjóra stærstu flokkana eftir kynjum. Um 25 prósent karla styðja Samfylkinguna en tæplega 33 prósent kvenna. Hlutföllin eru öfug hjá Sjálfstæðisflokki, sem nýtur stuðnings tæplega 38 prósenta karla en 24 prósenta kvenna.

Vinstri græn sækja sinn stuðning einnig umtalsvert meira til kvenna en karla. Um það bil 32 prósent kvenna sögðust styðja flokkinn en 18 prósent karla. Framsóknarflokkurinn nýtur stuðning 17 prósenta hjá körlum en 10 prósenta hjá konum.- bj








Fleiri fréttir

Sjá meira


×