Innlent

Kísilverksmiðja fái orku sem ætluð var álveri

Skrifa undir Eyþór Arnalds hjá Strokki Energy, Hjörleifur B. Kvaran og Guðlaugur G. Sverrisson frá Orkuveitunni og Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Strokks.
Skrifa undir Eyþór Arnalds hjá Strokki Energy, Hjörleifur B. Kvaran og Guðlaugur G. Sverrisson frá Orkuveitunni og Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Strokks.

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti í gær rammasamning um orkusölu frá Hverahlíðarvirkjun til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju við Þorlákshöfn. Stefnt er að bindandi samkomulagi á næstu mánuðum.

Samningurinn tekur til 85 MW af 90 MW, sem framleiða á í Hverahlíð. Miðað er við afhendingu orkunnar árið 2013. Fyrirtækið Thorsil ehf., í eigu kanadíska fyrirtækisins Timminco Limited og Strokks Energy er viðsemjandi Orkuveitunnar, segir í yfirlýsingu frá OR. Timminco rekur nú þegar kísilmálmverksmiðju í Kanada. Uppbygging verksmiðjunnar við Þorlákshöfn á að kosta 28,5 milljarða króna. Hún verður byggð í þremur áföngum 2013 og 2014. 400 manns munu starfa við verksmiðjuna á byggingartíma en 160 eftir að framkvæmdum lýkur.

Áður hafði OR gert rammasamning við Norðurál um að afhenda orku Hverahlíðarvirkjunar til álvers í Helguvík. Sá samningur rann úr gildi í desember en hefur verið talinn með þegar rætt hefur verið um að 325 MW af 625 MW orkuþörf álvers í Helguvík liggi fyrir.

Samningurinn frá í gær byggir á að nýjum verkefnum í Ölfusi beri forgangsréttur að orku Hverahlíðarvirkjunar. Fjármögnun virkjunarinnar er ekki að fullu lokið, segir í tilkynningu frá OR í gær, en framkvæmdir hefjast þegar fjármögnun liggur fyrir og bindandi samningur hefur verið gerður um orkusöluna.

Samningurinn við Thorsil var samþykktur í stjórn OR í gær með atkvæðum fulltrúa sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og Akranesbæjar. Fulltrúar Samfylkingar og VG sátu hjá.

- pg





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×