Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykkti í gær rammasamning um orkusölu frá Hverahlíðarvirkjun til kísilmálm- og sólarkísilverksmiðju við Þorlákshöfn. Stefnt er að bindandi samkomulagi á næstu mánuðum.
Samningurinn tekur til 85 MW af 90 MW, sem framleiða á í Hverahlíð. Miðað er við afhendingu orkunnar árið 2013. Fyrirtækið Thorsil ehf., í eigu kanadíska fyrirtækisins Timminco Limited og Strokks Energy er viðsemjandi Orkuveitunnar, segir í yfirlýsingu frá OR. Timminco rekur nú þegar kísilmálmverksmiðju í Kanada. Uppbygging verksmiðjunnar við Þorlákshöfn á að kosta 28,5 milljarða króna. Hún verður byggð í þremur áföngum 2013 og 2014. 400 manns munu starfa við verksmiðjuna á byggingartíma en 160 eftir að framkvæmdum lýkur.
Áður hafði OR gert rammasamning við Norðurál um að afhenda orku Hverahlíðarvirkjunar til álvers í Helguvík. Sá samningur rann úr gildi í desember en hefur verið talinn með þegar rætt hefur verið um að 325 MW af 625 MW orkuþörf álvers í Helguvík liggi fyrir.
Samningurinn frá í gær byggir á að nýjum verkefnum í Ölfusi beri forgangsréttur að orku Hverahlíðarvirkjunar. Fjármögnun virkjunarinnar er ekki að fullu lokið, segir í tilkynningu frá OR í gær, en framkvæmdir hefjast þegar fjármögnun liggur fyrir og bindandi samningur hefur verið gerður um orkusöluna.
Samningurinn við Thorsil var samþykktur í stjórn OR í gær með atkvæðum fulltrúa sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og Akranesbæjar. Fulltrúar Samfylkingar og VG sátu hjá.
- pg