Innlent

Búið að ákveða að taka greinina af lífi

Tekið við áskorun Þingmenn í fjárlaganefnd tóku ábúðarfullir við áskorun verktaka um að Vegagerðinni yrði gert kleift að bjóða út nýframkvæmdir á næsta ári. fréttablaðið/gva
Tekið við áskorun Þingmenn í fjárlaganefnd tóku ábúðarfullir við áskorun verktaka um að Vegagerðinni yrði gert kleift að bjóða út nýframkvæmdir á næsta ári. fréttablaðið/gva

„Það er búið að ákveða að taka greinina af lífi,“ segir Hilmar Konráðsson, forstjóri Magna verktaka. Hilmar fór fyrir Verktakalestinni svokölluðu sem á mánudaginn fyrir jól ók frá Hafnarfirði til Alþingis og færði fjárlaganefndarmönnum áskorun um að skila Vegagerðinni til baka óráðstöfuðum fjárheimildum og ráðast þegar í arðbærar framkvæmdir. Tæpum sólarhring síðar voru fjárlög næsta árs samþykkt. Ekki var tekið tillit til áskorunar verktakanna.

Hilmar segir ástandið í verktakabransanum skelfilegt. Verkefnum – og þar með störfum – hafi snarfækkað á stuttum tíma. Til marks um það má nefna að störfum í jarðvinnu og byggingariðnaði hefur fækkað úr meira en sautján þúsund árið 2007 í um þrjú þúsund nú.

Hann segir ekkert gefa tilefni til að ætla að staðan batni á næstunni, engin teikn séu á lofti um aukin verkefni. „Það er búið að tala um hitt og þetta síðan í júní, tvöföldun Suðurlandsvegar og ég veit ekki hvað og hvað en það er allt dautt. Menn berja sér reyndar á brjóst og segjast ætla af stað með Landspítalann árið 2011 en þá verða bara engir verktakar eftir.“

Bág staða verktaka bitnar ekki aðeins á starfsfólki verktaka­fyrirtækjanna sjálfra. Hilmar bendir á að ekki færri en fjögur stór fyrirtæki í vélasölu séu ýmist hætt starfsemi eða glími við gríðarlegan rekstrarvanda. Hið sama hljóti að verða uppi á teningnum hjá verkfræðistofum.

En ekki eru allar vélar stopp. Hér og þar eru verktakar að störfum en Hilmar segir verkin öllu jafna ekki arðbær. „Sannleikurinn er sá að menn eru að vinna fyrir kannski sjötíu prósent af kostnaðaráætlunum. Það hefur áður verið reynt en aldrei gengið til lengdar. Menn verða ekki feitir á þessu, ef þeir yfirleitt geta klárað þessi verk.“

Hilmar segir verktaka gera sér fulla grein fyrir samdrættinum í samfélaginu en óhæfa sé að ráðast ekki í neinar nýjar framkvæmdir. Án slíks komist efnahagslífið ekki á skrið á ný. bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×