Innlent

Rauði krossinn með símasöfnun vegna hamfaranna í Haítí

Frá Haítí. Mynd/AP
Frá Haítí. Mynd/AP
„Reynslan sýnir að fyrstu aðgerðir Rauða krossins í jarðskjálftum sem þessum eru að veita fólki skjól, mat og hreint vatn, auk læknisaðstoðar og sálræns stuðnings," segir Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands, sem hefur opnað söfnunarsíma sinn vegna jarðskjálftans á Haítí í gærkvöldi. Rauði krossinn hér á landi hefur boðið fram vana sendifulltrúa í neyðarviðbrögðum.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Haítí hafa unnið sleitulaust síðan í gærkvöldi að björgun og við að aðstoða sjúkrahús á hamfarasvæðinu við umönnun slasaðra, að fram kemur í tilkynningu frá Rauða krossi Íslands.

Óttast er að þúsundir manna hafi farist í jarðskjálftanum sem reið yfir Haítí og að tugþúsundir fjölskyldna þurfi á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.

Brýnustu aðgerðir eru björgun úr rústum, uppsetning bráðabrigða sjúkraskýla og að koma fólki sem fyrst í öruggt skjól. Alþjóðlegt teymi sérfræðinga frá Rauða krossinum kemur til Haítí í dag til að veita aðstoð á hamfarasvæðunum. Í tilkynningunni segir að Rauði krossinn í Haítí hafi áralanga reynslu af neyðarviðbrögðum enda hamfarir tíðar á þessu svæði. Fellibyljir hafa valdið miklum usla á eyjunni undanfarinn áratug, sá síðasti árið 2008.

Alþjóða Rauði krossinn mun senda út neyðarbeiðni seinna í dag, og hefur Rauði kross Íslands þegar boðið fram vana sendifulltrúa í neyðarviðbrögðum ef þörf reynist. Rauða kross félög í Karabíska hafinu hafa öflugt net sjálfboðaliða á svæðinu, sem þjálfaðir eru í neyðarviðbrögðum og geta brugðist tafarlaust við þegar hamfarir verða í nágrannaríkjum.

Rauði kross Íslands hefur opnað fyrir söfnunarsíma sinn 904 1500 vegna jarðskjálftans. Þegar hringt er í númerið leggjast 1.500 krónur á næsta símareikning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×