Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Vantaði beittari sóknarleik hjá okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég er sérstaklega óánægður með fyrri hálfleikinn hjá okkur og hvernig við nálguðumst leikinn," sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Valsmanna, eftir leik sinna manna í kvöld. Valsmenn töpuðu 3-1 gegn Keflvíkingum.

„Keflvíkingar komust verðskuldað yfir 2-0. Mínir menn koma svo mun einbeittari út í síðari hálfleikinn og minnkuðu muninn en það bara dugði ekki til. Arfaslakur fyrri hálfleikur gerði okkur virkilega erfitt fyrir," sagði Gunnlaugur.

„Okkur vantaði beittari sóknarleik en það má ekki taka það af Keflvíkingum að þeir voru gríðarlega þéttir til baka og erfiðir að eiga við.Við verðum bara að taka það jákvæða úr þessum leik og byrja strax að undirbúa okkur fyrir næsta leik," sagði Gunnlaugur.

Valsmenn mæta Frömurum í sannkölluðum Reykjavíkurslag í næstu umferð og þá ætla Valsmenn að vera klárir í slaginn.

„Við erum búnir að spila við Framara fjórum sinnum á þessu ári og allir leikirnir hafa verið virkilega spennandi, fyrir utan kannski bikarleikinn sem við töpuðum. Okkur hlakkar bara til að mæta Fram og það er líka mikilvægt að klára þetta mót með sæmd," sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Vals, svekktur eftir leikinn í kvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×