Enski boltinn

Arshavin ætlar að reyna að ná City-leiknum um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrei Arshavin.
Andrei Arshavin. Mynd/AFP
Rússinn Andrei Arshavin vonast til þess að geta spilað á ný með Arsenal þegar liðið mætir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Arshavin hefur ekkert getað spilað síðan að hann meiddist á kálfa í fyrri Meistaradeildarleiknum á móti Barcelona.

„Ég er að ná mér og vonandi get ég verið með í leiknum á móti Manchester City," sagði Andrei Arshavin í viðtali á heimasíðu Arsenal.

„Þetta hefur verið erfitt tímabil og reynt mikið á mig og liðsfélaga mína. Þetta var samt ekki slæmt tímabil og vonandi getum við endað það á þremur sigurleikjum," sagði Andrei Arshavin.

Andrei Arshavin átti erfitt með að horfa upp á Arsenal-liðið í síðustu þremur leikjum en liðið tapaði þá á móti Barcelona, Tottenham og Wigan.

„Þetta var mikil synd að ég gæti ekkert hjálpað liðinu mínu sem var að tapa. Það eina sem ég gat gert var að horfa upp á þetta," sagði Arshavin.

„Það er margt sem við getum tekið með okkur frá þessu tímabili. Við erum búnir að skora mörg mörk undir lok leikja og við höfum átt góðar endurkomur í mörgum leikjum. Við verðum að halda þessum liðsanda á næsta tímabili því þá munum við berjast aftur um titlana á næstu leiktíð," sagði Arshavin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×