Enski boltinn

Kemur ekki til greina að selja Subotic

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neven Subotic fagnar marki í leik með Dortmund fyrr í mánuðinum.
Neven Subotic fagnar marki í leik með Dortmund fyrr í mánuðinum. Nordic Photos / Bongarts

Manchester United hefur nú verið orðað við serbneska varnarmanninn Neven Subotic sem slegið hefur í gegn með Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni.

Fjölmörg félög eru sögð hafa áhuga á Subotic sem er 21 árs gamall og þykir með efnilegri varnarmönnum heimsins í dag.

En forráðamenn Dortmund hafa engan áhuga á að selja Subotic og sagði framkvæmdarstjóri félagsins, Hans-Joachim Watzke, að slíkt kæmi einfaldlega ekki til greina.

„Ef Manchester United vill fá hann verða þeir að afsala okkur tveimur stórum olíusvæðum. Eða í það minnsta senda okkur tvo stóra vörubíla troðfulla af peningaseðlum," sagði Watzke.

„Við ætlum okkur ekki að selja leikmanninn enda er hann samningsbundinn félaginu."

Sjálfur sagði Subotic að hann væri ánægður hjá Dortmund. „Það er ekkert leyndarmál að ég nýt mín vel hjá Dortmund og er ekki að hugsa um að koma mér neitt annað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×