Innlent

Starfsmenn Securitas leituðu að sprengjum á Laufásvegi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Starfsmenn Securitas sáu um öryggisgæslu við sendiráðið á Laufásvegi. Mynd/ Hari.
Starfsmenn Securitas sáu um öryggisgæslu við sendiráðið á Laufásvegi. Mynd/ Hari.
Óeinkennisklæddir starfsmenn Securitas sáu um öryggisgæslu og sprengjuleit við sendiráð Bandaríkjanna á Laufásvegi allt til ársins 2005. Þetta staðfestir Guðmundur Arason, forstjóri Securitas, í samtali við Vísi.

„Þeirra hlutverk var að hafa eftirlit með umferð um hverfið. Þeir voru í sprengjuleit og voru þjálfaðir sem slíkir," segir Guðmundur. Hann segir að í slíkum tilfellum þurfi að leita að sprengjum undir bílum sem koma að húsinu og í ýmsum skúmaskotum í nágrenni við húsnæði sendiráðsins. „Við höfðum hins vegar ekkert hlutverk sem kemur að njósnum eða öðru slíku," segir Guðmundur.

Guðmundur segir að ekki hafi verið fylgst með nágrönnum sendiráðsins. Hins vegar hafi verið fylgst með fólki sem keyrði framhjá sendiráðinu og ef vitað var að einhverjir stöðvuðu fyrir framan það sem ekki áttu heima í götunni hafi það verið kannað. Ekki hafi verið grennslast fyrir um það fólk sem vitað var að byggi í götunni.

Guðmundur segir að það hafi verið ákveðið árið 2005 að sendiráðið tæki þjónustuna yfir. Það hafi verið sameiginleg ákvörðun allra sendiráða í Evrópu. Einhverjir starfsmenn sem unnu hjá Securitas hafi orðið starfsmenn sendiráðsins.

Guðmundur þvertekur fyrir það að starfsmenn Securitas hafi verið að gramsa í rusli nágranna sendiráðsins eins og fram hefur komið í fréttum. „Það er náttúrlega bara ekki rétt. Við vorum í því hlutverki að leit að sprengjum. Þetta náttúrlega gerist eftir ellefta september 2001. Þá hækkar viðbúnaðarstig allra sendiráða Bandaríkjanna og við tökum þátt í því," segir Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×