Innlent

Hátíðleg móttaka fyrir fimleikastelpurnar

Boði Logason skrifar
Frá móttökunni. Hér sést Jóhanna Sigurðardóttir ræða við tvær fimleikastelpur.
Frá móttökunni. Hér sést Jóhanna Sigurðardóttir ræða við tvær fimleikastelpur. Mynd/Anton

Kvennalið Gerplu fékk hátíðlega móttöku í Gerðarsafni nú seinni partinn þegar það kom heim af Evrópumótinu í hópfimleikum í Svíþjóð. Þar fékk liðið gullverðlaun.

Jóhanna Sigurðardóttir fluttir ávarp fyrir liðið en þar sagði hún meðal annars að árangurinn sýni að öllum Íslendingum séu allir vegir færir ef þjóðin er samtaka og hún vinni saman sem einn maður.

Þá sagðist hún hafa fyllst af stolti þegar hún frétti af árangri liðsins.

Á heimasíðu Gerplu segir að fjölmargir Íslendingar hafi verið meðal áhorfenda á mótinu og að þeir hafi skemmt sér konunglega enda árangurinn með eindæmum góður. Auk gullverðlaunanna vann unglingalandslið Íslands til bronsverðlauna og karlalandsliðið varð í fjórða sæti.

Fimleikastúlkurnar unnu afgerandi sigur því þær hlutu hæstu einkunn á öllum áhöldum á mótinu. Samanlögð einkunn þeirra var 50,233. Í öðru sæti varð lið Svíþjóðar með heildareinkunnina 47,433 og í þriðja sæti urðu Norðmenn með einkunnina 46,416.

Í gullliðinu eru:

Anna Guðný Sigurðardóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Björk Óðinsdóttir, Eva Dröfn Benjamínsdóttir, Fríða Rún Einarsdóttir, Glódís Guðgeirsdóttir, Hafdís Jónsdóttir, Hrefna Þ. Hákonardóttir, Íris Mist Magnúsdóttir, Jóhanna Gunnarsdóttir, Karen Sif Viktorsdóttir, Kristjana Sæunn Ólafsdóttir, Rakel Reynisdóttir, Sif Pálsdóttir og Sigrún Dís Tryggvadóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×