Innlent

Reykjavíkurborg tekur að sér þjónustu við geðfatlaða

Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Félags- og tryggingamálaráðuneytið og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafa ákveðið að Reykjavíkurborg taki að sér ábyrgð og framkvæmd á þjónustu við geðfatlaða sem Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík hefur sinnt fram til þessa. Tillaga þess efnis var samþykkt samhljóða í velferðarráði Reykjavíkur í gær. Samþykktin er í samræmi við viljayfirlýsingu sem undirrituð var af félagsmálaráðherra og borgarstjóra í lok ágúst 2008.

Fram kemur í tilkynningu að frá þeim tíma hafi verið unnið þarfagreiningu og skilgreiningu samningsáherslna. Jafnframt hefur verið unnið að innleiðingu þjónustusamnings milli Reykjavíkurborgar og ráðuneytisins um uppbyggingu íbúðakjarna fyrir geðfatlaða sem undirritaður var samhliða viljayfirlýsingunni í ágúst 2008.

Í samræmi við þann þjónustusamning hefur borgin undanfarna mánuði sett á fót átta íbúðakjarna fyrir geðfatlaða og verða tveir þeir síðustu teknir í notkun í þessum mánuði. Uppbygging kjarnanna og innleiðing þjónustu á þeim hefur tekist framar vonum, en áhersla er lögð á sjálfstæði og virkni einstaklinganna sem þar búa, að fram kemur í tilkynningu.

Samkvæmt fyrirhuguðum samningum milli ríkis og borgar verður þjónusta við geðfatlaða í Reykjavík veitt frá einni hendi í nærumhverfi. Í tilkynningunni segir að markmiðið sé að færa þjónustuna nær notendum, út í samfélagið og stuðla þannig að virkni fólks í eigin umhverfi. Í samvinnu við geðsvið Landspítalans verði áhersla lögð á samfélagsþátttöku og að einstaklingum gefist kostur á að fá þjónustuna heim í stað þess að fá hana á stofnunum. Áhersla verður jafnframt lögð á að geðfatlaðir geti átt kost á búsetu í einstaklingsíbúðum.

Þá kemur fram í tilkynningunni að yfirfærsla á þjónustu við geðfatlaða til borgarinnar sé liður í heildaryfirfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga. Með yfirfærslunni verður nærþjónusta við alla Reykvíkinga á einni hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×