Innlent

Niðurskurður í raunvísindum hamlar nýsköpun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gert er ráð fyrir miklum niðurskurði á fjárlögum til raunvísindadeildar Háskóla Íslands.
Gert er ráð fyrir miklum niðurskurði á fjárlögum til raunvísindadeildar Háskóla Íslands.
Svo gæti farið að námsframboð í raunvísindagreinum yrði takmarkað verulega nái hugmyndir um niðurskurð í háskólum fram að ganga.

Í ályktun frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands kemur fram að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár sé fyrirhuguð skerðing nemendaframlaga til háskóla vegna náms í raunvísindum, verk- og tæknifræði um 12,2% og náms í stærðfræði og tölvunarfræði um 9,6%. Fyrirhuguð skerðing vegna náms í viðskiptafræði, lögfræði og hugvísindum sé hins vegar einungis 0,6%.



Hugsanlega dregið úr námsframboði


Guðmundur G. Haraldsson, forseti Raunvísindadeildar Háskóla Íslands, segir að til að bregðast við þessu hafi þær hugmyndir verið ræddar að taka nemendur í fámennum greinum inn á tveggja ára fresti í stað árlega.

„Það er ekki góð staða að við þurfum að taka nemendur inn annað hvert ár. Þá myndum við bara missa nemendur utan og þeir kæmu ekkert aftur," segir Guðmundur. Þetta eigi við um eðlisfræði, efnafræði, tölvunarfræði og stærðfræði. Guðmundur segir að staðan sé sérstaklega erfið í stærðfræði og tölvunarfræði.

Nýsköpun hamlað



Guðmundur segir að tillagan um að bregðast við fjárhagsvandanum með minna námsframboði sé enn á umræðu stig. Ekkert sé farið að útfæra hana. „Við megum síst við því að takmarka aðgengi nema að þessu námi," segir Guðmundur. Hann nefnir dæmi um nokkur fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á raunvísindaþekkingu. „CCP er mjög gott dæmi sem veltir milljörðum hérna og er hugbúnaðartengt. Svo eru náttúrlega öll þessi ágætu sprotafyrirtæki sem verið er að fjalla um. Svo eru þessi rótgrónu hátæknifyritæki eins og Marel og Össur og svona mætti telja lengi," segir Guðmundur. Hann nefnir Actavis líka sem dæmi.



Lokaákvörðunin hjá skólunum


Ályktun kennara við Raunvísindadeild var samþykkt á miðvikudag í síðustu viku og send menntamálaráðherra og þingmönnum í morgun. Ákvarðanir um fjárveitingar til einstakra deilda innan háskólanna byggir á reiknilíkani sem var fyrst kynnt til sögunnar árið 1999. Í grein sem Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra skrifaði í Fréttablaðið á laugardag segir hún að reiknilíkanið sé fyrst og fremst vinnutæki sem ætlað er að leiðbeina um hvernig fjárveitingum er skipt milli háskóla. Skólunum sé svo í sjálfvald sett hvernig þeir deili fjármagninu innan sinna raða. Nám á sviði félags- og mannvísinda, guðfræði, lögfræði og annað sambærilegt nám, hafi lengi verið talið vanmetið í líkaninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×