Enski boltinn

Rooney er ekki til sölu sama hve hátt tilboð berst

Elvar Geir Magnússon skrifar
Wayne Rooney hefur skorað 21 mark á tímabilinu.
Wayne Rooney hefur skorað 21 mark á tímabilinu.

Cesc Fabregas og Wayne Rooney hafa verið tveir af bestu leikmönnum tímabilsins á Englandi. Því mótmælir enginn. Þeir verða í eldlínunni í dag þegar Arsenal tekur á móti Manchester United.

Engin bönd halda Rooney um þessar mundir og hann verið mikið í umræðunni. Spænsku stórliðin Barcelona og Real Madrid eru sögð horfa löngunaraugum til leikmannsins og skyldi engan undra.

Sögusagnir hafa verið uppi um að Manchester United gæti neyðst til að selja Rooney vegna bágrar fjárhagsstöðu. David Gill, framkvæmdastjóri félagsins, sagði hinsvegar við BBC að Rooney væri ekki til sölu, sama hvaða upphæð væri í boði.

„Við viljum augljóslega halda þessum leikmanni. Hjarta hans slær með Manchester United. Hann er með samning til 2012 og hefur sagst vilja vera áfram hjá okkur og við viljum hafa hann," sagði Gill. „Það eru afskaplega fáir sem vilja yfirgefa Manchester United."

Sjálfur virðist Rooney ekki vera að íhuga að yfirgefa United. „Þetta er félagið mitt og ég er mjög ánægður hér. Fjölskylda mín býr í hálftíma fjarlægð og ég sé enga ástæðu til að spila fótbolta einhverstaðar annarstaðar. Manchester United er stærsta fótboltafélag heims," sagði Rooney.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×