Innlent

Með tæp fjögur kíló af amfetamíni

Maðurinn var að koma frá Berlín þegar hann var handtekinn.Fréttablaðið / valgarður
Maðurinn var að koma frá Berlín þegar hann var handtekinn.Fréttablaðið / valgarður

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli handtók um miðjan desember karlmann á þrítugsaldri sem flutti með sér amfetamín til landsins. Maðurinn situr nú í gæsluvarðhaldi.

Maðurinn var handtekinn við komuna í Leifsstöð frá Berlín 14. desember. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hann með tæp fjögur kíló af amfetamíni falin í farangri sínum. Ekki hafa fengist nánari upplýsingar um aldur mannsins en að hann sé á milli tvítugs og þrítugs.

Maðurinn var daginn eftir handtökuna úrskurðaður í gæsluvarðhald í þrjár vikur, og rennur það því út næsta þriðjudag. Hann kærði ekki úrskurðinn til Hæstaréttar.

Heimildir Fréttablaðsins herma að rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum beinist ekki síst að því hverjir vitorðsmenn smyglarans eru og hvort hann hafi aðeins verið burðardýr eða átt stærri þátt í skipulagningunni. Af þeim sökum fást afar takmarkaðar upplýsingar um málið frá lögreglu. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×