Lífið

Vægast sagt löðrandi

Egill Einarsson. MYNDIR/Hjalti Vignisson.
Egill Einarsson. MYNDIR/Hjalti Vignisson.

Jay Cutler er stærsta nafnið í vaxtarækt í dag, hann er fjórfaldur herra Olympia sem hefur unnið Arnold´s Classic þrisvar sinnum ásamt fjölda af öðrum titlum í vaxtarækt. Egill Einarsson eyddi gærdeginum með kappanum í Sporthúsinu í gær eins og meðfylgjandi myndir sýna. Við heyrðum í Agli eða Gillz eins og hann er oftast nefndur og spurðum hann út í Jay.

„Já það var gaman að rífa í járnin með Cutlernum. Ég er 94 kíló af hreinu kjöti en hann er 130 kíló af hreinu kjöti. Ég er vanur að lyfta með Audda Blö og Hjöbba Hafliða þar sem ég er tröllið á æfingunum, en þarna var mér neglt niður á jörðina. Leið eins og aumingja alla æfinguna," segir Egill og heldur áfram:

„Hann borðar 6500 kaloríur á hverjum degi og borðar 2,2 kíló af kjöti á dag. Þegar hann kaupir sér gallabuxur þá eyðir hann meiri pening í að breyta þeim svo hann passi í þær en buxurnar kostuðu."

„Ég sýndi honum bókina mína, Lífsleikni Gillz, sem kemur út núna á laugardaginn og þýddi lauslega fyrir hann nokkra kafla. Honum leist mjög vel á hana og hann vill að ég gefi hana út í Bandaríkjunum. Aldrei að vita nema ég hjóli í það og fái aðstoð frá nýja besta vini mínum honum Jay Cutler," segir Egill.

Spjölluðuð þið saman af einhverju viti? „Hann sagði mér á æfingunni að hann ætlar að henda sér í leiklistina þannig aldrei að vita nema við sjáum kappann á hvíta tjaldinu á næstu árum. Hann minntist líka á það hversu gríðarlega mikið af myndarlegum prinsessum væru í Sporthúsinu. Hann var ekki að hata útsýnið."

„Það verður gaman að sjá hann henda sér á skýluna í Laugardalshöllinni á laugardagskvöldið og pósa. Mæli með því að fólk kíki því það er magnað að sjá þetta kjötstykki," segir Egill áður en kvatt er.

Myndasíða ljósmyndarans Hjalta Vignissonar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.