Innlent

Fyrsta hundasleðakeppnin haldin á morgun

Hundar draga sleða á Reykjavíkurtjörn.
Hundar draga sleða á Reykjavíkurtjörn.

„Við höldum að þetta sé fyrsta mótið sem haldið hefur verið hér á Íslandi," segir Anna Marín Kristjánsdóttir, einn af skipuleggjendum sleðahundakeppni sem verður haldin á morgun við Víti fyrir ofan Kröfluvirkjun í Mývatnssveit.

Alls hafa um 20-30 einstaklingar skráð hundana sína til þátttöku en að sögn Önnu þá eiga flestir aðeins einn eða tvo hunda, það er að segja sleðahunda af tegundinni Siberian Husky, því eru allnokkrir saman í liði. Fjórir hundar draga hvern sleða.

Á Rauðavatni í blíðviðri.

„Þar sem þetta er fyrsta mótið þá eru brautirnar ekki mjög langar," segir Anna Marín en brautin verður um 2-3 kílómetrar. Það er aðeins brotabrot af vegalengdinni sem keppendur fara í helstu hundasleðakeppni veraldar sem er haldin árlega í Alaska. Þá fara keppendur 1800 kílómetra í mikilli þrautagöngu.

Anna Marín segir keppnisfyrirkomulagið fjölbreytt. Auk þess sem keppendur fara 2-3 kílómetra verður einnig keppt í spyrnu þar sem tveir sleðar keppa í styttri vegalengd.

Keppnin hefst klukkan 10 í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×