Íslenski boltinn

Heimir Guðjóns: Styttist í toppinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Ég er mjög ánægður með að hafa náð að klára þennan leik eftir ágæta spilamennsku hjá mínu liði," sagði Heimir Guðjónsson ,þjálfari FH, sáttur eftir sigurinn gegn Selfyssingum í 19.umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 2-1 sigri FH-inga, en þeir færast æ nær efsta sætinu.

„Seinni hálfleikurinn var ekki góður að hálfu FH og Selfyssingarnir gengu á lagið sem gerði það að verkum að við vorum á eftir á öllum vígstöðum stóran hluta af síðari hálfleiknum. Ég er samt ánægður með að strákarnir misstu ekki dampinn eftir jöfnunarmarkið og skoruðu strax í kjölfarið," sagði Heimir.

„Ég er ekki sáttur með hvað strákarnir eru að misnota mikið af færum hérna í restina. Við þurftum að fá þetta þriðja mark inn til að klára leikinn og þeir fengu heldur betur tækifærin til þess,"sagði Heimir.

„Það fór smá um mann þegar Selfyssingar fengu þetta færi í lokin, en Gunnleifur bjargaði okkur enn einu sinni. Það hefði ekki verið neitt sérstakt að fá á sig mark á þessum tímapunkti og ná aðeins í eitt stig," sagði Heimir.

„Eftir úrslit kvöldsins þá er aðeins styttra í toppinn en við megum ekkert hugsa út í slíka hluti , við eigum leik við Stjörnuna í næstu umferð og það er næsta verkefni," sagði Heimir ánægður eftir sigurinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×