Íslenski boltinn

Willum: Kærkominn sigur hjá okkur

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Þetta var langþráður og kærkominn sigur hjá okkur," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflvíkinga, eftir sigurinn á Val í kvöld. Leiknum lauk með 3-1 sigri Keflvíkinga og var sigurinn í raun og veru aldrei í hættu.

„Við vorum ákveðnir í því að innbyrða okkar fyrsta sigur á þessum nýja heimavelli og það tókst og því mikill léttir fyrir okkur," sagði Willum.

„Ég er virkilega stoltur af mínu liði eftir leikinn í kvöld. Við vorum að spila við feiknilega gott lið sem hefur verið að spila virkilega vel undnafarið og því var þessi sigur ekki gefins."

Haukur Ingi Guðnason átti hreint út sagt stórkostlegan leik fyrir heimamenn og voru Valsmenn í stökustu vandræðum með hann. „Það gefur okkur marga möguleika að vera komnir með Hauk inn í liðið. Hann hefur mikinn hraða og erfitt fyrir varnarmenn að eiga við hann. Hörður var líka virkilega mikilvægur fyrir okkur hér í kvöld eins og allt liðið."

„Ég var gríðarlega ánægður með þá yfirvegun sem strákarnir sýndu. Við héldum boltanum vel og biðum eftir réttu augnabliki til að koma með sendingar fyrir aftan vörn Valsmanna. Þetta gekk upp hjá okkur í kvöld, en það hefur vantað," sagði Willum ánægður eftir leikinn í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×