Innlent

Leiðtogi norskra Vítisengla handtekinn í Leifsstöð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Leiðtogi norskra Vítisengla var handtekinn í Leifsstöð við komuna til landsins seinni partinn í gær. Hann verður líklegast sendur aftur til Noregs nú á áttunda tímanum.

Maðurinn, sem heitir Leif Ivar Kristiansen, var í samfloti með Morten Furuholmen, lögmanni sínum, við komuna til Íslands. Furuholmen dvaldi á hóteli á Suðurnesjum í gær þegar að fréttastofa náði tali af honum. Hann sagði að sér væri brugðið vegna handtökunnar og taldi að hún væri ólögmæt. Benti Furuholmen á að Kristiansen hefði margoft komið til Íslands, siðast í desember. Það sætti furðu að hann væri handtekinn þegar að hann kæmi til landsins með lögmanni sínum.

Furuholmen segir að hann og Kristiansen hafi komið hingað til lands til að undirbúa málshöfðun gegn íslenska ríkinu vegna annars manns úr röðum Vítisengla sem var handtekinn við komuna til Íslands um helgina. Þeir hafi ætlað að hitta íslenskan lögmann og fara yfir málið með honum.

Furuholmen viðurkenndi að Kristiansen væri á sakaskrá fyrir brot sem hann hefði framið erlendis. Hann hefði hins vegar aldrei gerst sekur um afbrot á Íslandi.

Furuholmen sagði að íslenska ríkinu yrði stefnt fyrir íslenskum dómstólum vegna handtökunnar og hugsanlega fyrir EFTA dómstólnum líka.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis mun fjalla ítarlegar um málið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×