Erlent

Tólf ára vill skilnað frá áttræðum eiginmanni

Óli Tynes skrifar
Barnabrúðkaup eru ekki óalgeng hjá íhaldssömum múslimum.
Barnabrúðkaup eru ekki óalgeng hjá íhaldssömum múslimum.

Stjórnvöld í Saudi-Arabíu hafa fallist á að aðstoða tólf ára telpu sem vill fá skilnað frá áttræðum eiginmanni sínum. Þetta er í fyrsta skipti sem slíkt er gert og þetta gæti orðið prófmál.

Enginn lágmarksaldur fyrir hjónabönd er í Saudi-Arabíu og algengt er að barnungar stúlkur sé gefnar margfallt eldri eiginmönnum.

Umrædd telpa var gift frænda föðurins á síðasta ári gegn vilja hennar og móðurinnar. Hjónabandið var innsiglað með því að hinn áttræði brúðgumi greiddi fjölskyldunni tæpar þrjár milljónir króna og tók telpuna til sængur.

Móðirin sótti um skilnað en dró þá umsókn til baka án skýringa í síðasta mánuði.

Mannréttindanefnd Saudi-Arabíu tók þá málið að sér, en nefndin er ríkisrekin. Hún mun sækja um skilnað fyrir telpuna.

Málið hefur vakið mikið umtal í landinu. Dómarar og klerkar hafa réttlætt hjónabandið með tilvísan til þess að Múhameð spámaður gekk á sínum tíma að eiga níu ára gamla telpu.

Áhrifamikill kennimaður í Saudi-Arabíu hefur hinsvegar sagt að ekki sé hægt að nota aburð sem gerðist fyrir fjórtánhundruð árum til þess að réttlæta barnabrúðkaup í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×