Innlent

Icesave á ekki að trufla ferlið

Stefán Haukur Jóhannesson
Stefán Haukur Jóhannesson
„Umsóknin er á áætlun, ekkert hefur breyst hvað það varðar og engar vísbendingar komið fram um annað en að hún hafi sinn gang." Þetta segir Stefán Haukur Jóhannesson, aðalsamningamaður Íslands í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið.

Að hans sögn hafa þau skilaboð borist frá framkvæmdastjórn sambandsins að aðildarumsóknin sé ótengd Icesave-deilunni við Breta og Hollendinga. Litið sé svo á að málin séu aðskilin. Þann skilning áréttaði Stefan Fule, væntanlegur nýr stækkunarstjóri Evrópusambandsins, í yfirheyrslum í Evrópuþinginu í fyrradag.

Stefán Haukur segir að því stefnt af beggja hálfu að umsókn Íslands verði tekin til formlegrar umfjöllunar á leiðtogafundi Evrópusambandsríkjanna undir lok mars. Á honum verði tekin ákvörðun um að hefja viðræður.

Íslenska samninganefndin mun koma saman í Reykjavík á mánudag og halda áfram efnislegum undirbúningi fyrir fyrirhugaðar aðildarviðræður. Tékkinn Stefan Fule er tilnefndur í embætti framkvæmdastjóra stækkunarmála í nýrri framkvæmdastjórn ESB. Afráðið er að Jose Manuel Barroso verði áfram forseti framkvæmdastjórnarinnar. Verðandi framkvæmdastjórar sitja þessa dagana fyrir svörum í Evrópuþinginu en það er til þess að samþykkja nýja framkvæmdastjórn.

Fule hefur sinnt stjórnmálum í föðurlandi sínu en lengst af verið í utanríkisþjónustu þess. Hefur hann verið sendiherra Tékklands hjá Atlantshafsbandalaginu, Sameinuðu þjóðunum og í Bretlandi.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×