Fótbolti

Tveir Chile-menn spiluðu tvo landsleiki sama daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcelo Bielsa, landsliðsþjálfari Chile.
Marcelo Bielsa, landsliðsþjálfari Chile. Mynd/AP
Marcelo Bielsa, landsliðsþjálfari Chile, leggur greinilega mikla áherslu á að liðið spili sem flesta undirbúningsleiki fyrir HM í Suður-Afríku í sumar. Landsliðið hans spilaði nefnilega tvo leiki á sunnudaginn og vann þá báða.

Chile mætti fyrst Norður-Írum í Chillán í Chile klukkan 15.15 að staðartíma og vann 1-0 sigur. Esteban Paredes skoraði eina mark leiksins á 30. mínútu.

Nokkrum tímum síðar vann Chile síðan 3-0 sigur á Ísrael í Concepción en sá leikur hófst klukkan 22.15 eða fimm tímum eftir að fyrri leiknum lauk. Það voru þeir Humberto Suazo (19. mínúta), Alexis Sanchez (49.) og Rodrigo Tello (90.) skoruðu mörk liðsins í þeim leik.

Tveir leikmenn, Fabian Orellana og Felipe Gutierrez, spiluðu báða þessa leiki og náðu því að spila tvo landsleiki sama daginn. Þeir komu inná sem varamenn í báðum leikjum, léku seinni hálfleik í seinni leiknum en mun minna í þeim fyrri.

Chile á eftir að spila einn undirbúningsleik á móti Nýja-Sjálandi áður en liðið mætir á HM þar sem Chile er í riðli með Hondúras, Sviss og Spáni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×