Enski boltinn

Gareth Barry frá í fjórar vikur og HM er í hættu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gareth Barry.
Gareth Barry. Mynd/AP
Gareth Barry, miðjumaður Manchester City og enska landsliðsins er meiddur á ökkla og verður frá næstu fjórar vikurnar. Barry meiddist í tapinu á móti Tottenham í síðustu viku þegar hann datt um samherja sinn.

Gareth Barry hefur verið fastamaður í enska landsliðinu undir stjórn Fabio Capello en þessi meiðsli gætu hugsanlega komið í veg fyrir að hann verði í HM-hóp Englendinga enda rétt aðeins rúmur mánuður í að HM hefjist í Suður-Afríku.

Sven-Göran Eriksson, þáverandi landsliðsþjálfari Englendinga, valdi Barry ekki í landsliðið á HM í Þýskalandi 2006. Barry spilaði í 8 af 10 leikjum enska landsliðsins í undankeppninni og hefur alls leikið 36 landsleiki.

„Ég finn til með honum. Hann er frábær náungi og frábær leikmaður. Við vitum ekki alveg hversu slæmt þetta er í rauninni en ég vona að hann nái HM. Fabio Capello og læknalið enska landsliðsins munu meta það," sagði Roberto Mancini, stjóri Manchester City.

Fabio Capello tilkynnir 30 manna hóp sinn í næstu viku og sker hann síðan niður í 23 manna hóp eftir vináttulandsleiki við Mexíkó (24. maí) og Japan (30. maí.).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×