Innlent

Forsætisráðherra hissa á viðsnúningi stjórnarandstöðu um þjóðaratkvæði

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að mikið þurfi að koma til til þess að þjóðin sé svipt þeim rétti sem synjun forsetans á lögum um Icesave hafi fært henni. Stjórnvöld hafi þær skyldur í þeirri stöðu sem upp er komin að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ef kemur fram eindreginn vilji, bæði hjá þingi og þjóð, um að fallið sé frá þjóðaratkvæðagreiðslunni þá munum við skoða það. Ef menn sjá eitthvað nýtt í stöðunni sem gerir það að verkum að menn telja að hægt sé að setja málið í einhverja sátt, erum við tilbúin til að skoða það. En það má vera mikil breyting til að við séum tilbúin til þess."

Jóhanna undrast viðsnúning stjórnarandstöðunnar. „Þessi viðsnúningur virkar mjög sérkennilega á mann. Stjórnarandstaðan lagði mikla áherslu á það á þinginu nú fyrir áramót að málið færi í þjóðaratkvæðagreiðslu." Jóhanna minnir á að Icesave hverfi ekki; sé lögunum hafnað taki lögin frá í ágúst gildi.

Jóhanna hefur gert forsætisráðherrum Hollands og Bretlands grein fyrir þeirri stöðu sem hér er komin upp. Hún segir þá hafa lýst vonbrigðum, en þó sýnt því skilning að tryggja þyrfti farsælar lyktir í málinu. Þá hefur hún rætt við kollega sinn í Noregi um lán Norðurlandanna.

„Ég hef sagt við alla að ég væri hvenær sem er tilbúin til að koma út og hitta þá, ef það myndi greiða fyrir málinu."

- kóp





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×