Innlent

Óheppilegt að boðið sé upp á ólík úrræði

Fólki með húsnæðislán bjóðast mismunandi leiðir til greiðsluaðlögunar eftir því við hvaða lánastofnun það skiptir. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, telur það óeðlilegt. fréttablaðið/gva
Fólki með húsnæðislán bjóðast mismunandi leiðir til greiðsluaðlögunar eftir því við hvaða lánastofnun það skiptir. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, telur það óeðlilegt. fréttablaðið/gva
Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis, vill að Arion og Landsbankinn fari að dæmi Íslandsbanka og bjóði öllum skuldurum fasteignalána höfuðstólsleiðréttingu.

Fjallað var um greiðsluúrræði bankanna á fundi viðskiptanefndar í vikunni. Útskýrðu fulltrúar bankanna þriggja þær leiðir sem þeir bjóða upp á.

Lilja segir úrræðin misjöfn; Arion og Landsbankinn bjóði upp á svokallaða 110 prósenta leið þar sem höfuðstóll láns er færður niður í 110 prósent af markaðsvirði eignar en Íslandsbanki bjóði upp á lækkun höfuðstóls um tiltekna prósentu, eftir því hvort lánin eru í íslenskum krónum eða erlendri mynt.

„Ég myndi vilja sjá Arion-banka og Landsbankann fara sömu leið og Íslandsbanki, að bjóða öllum leiðréttingu á höfuðstól,“ segir Lilja sem telur 110 prósenta leiðina fyrst og fremst gagnast fólki sem hafði háar tekjur fyrir hrun og gat því fengið lán langt umfram verðmæti eigna. Sá hópur sé lítill. Tekjulágt fólk eigi kost á sambærilegri leið, greiðsluaðlögun innan bankanna. Hún sé hugsuð fyrir þá sem ómögulega geti staðið undir afborgunum eftir þann forsendubrest sem varð við 25 prósenta verðbólgu og 40 prósenta gengisfall.

Eftir standi stærsti hópurinn, fólk með millitekjur sem vitaskuld mátti þola sama forsendubrest. Þeim hópi standi engin leiðrétting til boða. „Sá hópur er ekki sáttur, við heyrum það mjög vel. Það fólk vill fá einhverja leiðréttingu líka,“ segir Lilja.

Aðrir lánveitendur en stóru viðskiptabankarnir þrír bjóða, að sögn Lilju, einungis upp á lögbundin úrræði. Þau eru annars vegar greiðslujöfnun og hins vegar greiðsluaðlögun með íhlutun dómskerfisins. Á það við um Íbúðalánasjóð, sparisjóðina og lífeyrissjóðina. „Úrræðin eru því mismunandi eftir lánastofnunum og af því hef ég áhyggjur. Mismunandi eftirá­aðgerðir eru ósanngjarnar. Fólk sem nú berst við að halda fasteignum sínum vissi ekki þegar það tók lán hvaða úrræði yrðu í bönkunum seinna meir. Við því vil ég spyrna við fótum.“

Lilja kveðst ekki telja að svo stöddu þörf á lagasetningu um að allar lánastofnanir veiti sömu úrræði. Eftirlitsnefnd eigi, lögum samkvæmt, að fylgjast með aðgerðum lánveitenda og gæta að sanngirni og jafnræði. Nefndin sé nýskipuð og taki senn til starfa.

bjorn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×