Innlent

Líkamsárás á Ísafirði: Einn í haldi en öðrum sleppt

Ástand manns sem varð fyrir alvarlegri líkamsárás á Ísafirði aðfararnótt skírdags er stöðugt og er maðurinn úr lífshættu. Maðurinn var stunginn var í andlitið í gleðskap í heimahúsi á Ísafirði aðfararnótt skírdags, en hann var gestkomandi og hugðist sækja tónlistarhátíð alþýðunnar, Aldrei fór ég suður í bænum.

Maðurinn hlaut alvarlega áverka í andliti og var fluttur undir læknishendur á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða í bænum. Tveir menn voru handteknir strax um nóttina, grunaðir um aðild að árásinni, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum. Annar mannanna var úrskurðaður í gæsluvarðhald til klukkar fjögur síðdegis á morgun vegna rannsóknarhagsmuna en hinum var sleppt í gærmorgun. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Líðan mannsins sem varð fyrir árásinni er stöðug að sögn vakthafandi læknis á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Hann er ekki í lífshættu þrátt fyrir alvarleg meiðsl, en hann dvelst enn á sjúkrahúsinu.

Að undanskilinni þessari líkamsárás hafa engin meiriháttar mál komið upp á Ísafirði. Lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af minniháttar stympingum milli manna og þá hafa þrír verið teknir fyrir ölvun við akstur, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vestfjörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×