Innlent

Framkvæma fyrir milljarð án lántöku

Mjólkárvirkjun. Framleiðslan verður aukin með nýrri vélasamstæðu.
Fréttablaðið/Jón Sigurður
Mjólkárvirkjun. Framleiðslan verður aukin með nýrri vélasamstæðu. Fréttablaðið/Jón Sigurður

„Þetta eru meðvitaðar aðgerðir til þess að reyna að halda uppi atvinnustiginu,“ segir Kristján Haraldsson, orkubústjóri í Orkubúi Vestfjarða, sem hyggur á framkvæmdir fyrir um eitt þúsund milljónir króna.

Í nýju framkvæmdunum felst bygging nýrrar 1,15 megavatta virkjunar við Borgarhvilftarvatn sem er ofan Mjólkárvirkjunar í Borgarfirði inn af Arnarfirði. Þá er ætlunin að leysa af hólmi eldri 5,7 megavatta vél í Mjólkárvirkjun með nýrri 7 megavatta vél. Þar er nú einnig 2,4 megavatta vél.

Raforkuframleiðslan á svæðinu verður þannig samtals 10,55 megavött í staðinn fyrir 8,1 megavatt.

Öfugt við flest önnur orkufyrirtæki hérlendis er fjárhagsstaða Orkubús Vestfjarða afar sterk. Kristján segir að fyrir utan eldri lífeyrisskuldbindingar sé Orkubúið skuldlaust. Það helgist af því að fyrirtækið hafi um áratuga skeið ekki fjármagnað framkvæmdir með lánsfé heldur þeim fjármunum sem reksturinn hafi skilað. Þessari stefnu verði haldið áfram.

Að sögn Kristjáns er stefnt að því að bjóða út jarðvinnu og byggingu stöðvarhúss í næsta mánuði. „Þeirri vinnu og uppsetningu vélarinnar á að vera lokið í nóvember,“ segir Guðmundur og ítrekar að farið sé í þessar framkvæmdir nú til að treysta atvinnulífið á Vestfjörðum. „Þó að þetta sé ekki stórt á landsmælikvarða og við vitum náttúrlega ekki hvaðan verktakarnir koma skiptir þetta máli hérna fyrir vestan.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×