Innlent

Baldur: Samningar aldrei á lokastigi

Baldur Guðlaugsson sem var í hópi embættismanna sem átti í viðræðum um Icesave í tíð ríkisstjórnar sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, segir langt í frá að viðræður hafi verið komnar á það stig áður en ríkisstjórnin fór frá, að endanlegt samkomulag væri í sjónmáli.

Baldur Guðlaugsson var á þessum tíma ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu og átti ásamt embættismönnum þaðan og frá utanríkisráðuneyti og viðskiptaráðuneyti í viðræðum við hollenska og breska embættismenn. Hann segir viðræðurnar að Íslands hálfu hafa tekið mið af Brussel viðmiðunum svo kölluðu og þingsályktun Alþingis um að teknar skyldu upp viðræður á grundvelli þeirra. En í Brussel viðmiðunum hafi komið fram að taka ætti tillit til erfiðrar og fordæmalausrar stöðu Íslands.

Baldur segir litla hreyfingu hafa verið á viðræðum embættismanna þjóðanna frá byrjun desember þar til ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór frá völdum í lok janúar 2009. Málið hafi alls ekki verið komið á það stig að ráðherrar eða ríkisstjórn tækju afstöðu til tillögu að niðurstöðu að endanlegum samningi. Það hafi alveg átt eftir að semja um lykilatriði mögulegra samninga og það hafi legið ljóst fyrir að semja þyrfti um málið á hinum pólitíska vettvangi en ekki embættislegum. Þegar ríkisstjórnin fór frá hafi málið alls ekki verið komið á það stig.

Baldur segir að utanríkisráðuneytið hafi farið með forystu í viðræðunum. Enda hafi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi utanríkisráðherra verið í viðræðum við einstaka utanríkisráðherra annarra Evrópuríkja um lausn málsins. Það hafi verið skilningur manna á milli á grundvelli Brussel viðmiðanna og þingsályktunar Alþingis, að finna þyrfti pólitíska niðurstöðu á því að Íslendingar gengjust við lágmarks tryggingum innistæðna. Þó aðeins þannig að skilmálar væru viðunandi fyrir Ísland og tækju mið af hinni erfiðu og fordæmalausu stöðu sem Ísland var í og viðurkennt var á hinum pólitíska vettvangi í Evrópu með samþykkt Brussel viðmiðanna.

Að sögn Baldurs var málið aldrei komið á það stig að ríkisstjórnin þyrfti að taka afstöðu til draga að samningnum sem gætu verið grunnur að lokasamkomulagi. Pappírar hafi gengið milli embættismanna um form mögulegs samnings og þeir hafi ekki verið lagðir fyrir ráðherra til afgreiðslu.

Þegar stjórnin fór frá hafi því hendur íslenskra stjórnvalda alls ekki verið bundnar í málinu og íslensk stjórnvöld ekki gengist inn á neina niðurstöðu í því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×