Erlent

Ástarbréf JFK til sænskrar fegurðardísar á uppboði

John F. Kennedy var hress maður.
John F. Kennedy var hress maður.

Ástarbréf fyrrum forseta Bandaríkjanna, John F. Kennedy til sænsku fegurðardísarinnar Gunilla von Post eru á uppboði eftir að fréttastöðin ABC opinberaði bréfin á dögunum. Vonir standa til að bréfin verði slegin á hundrað þúsund dollara, eða tæpar þrettán milljónir króna.

Um er að ræða allnokkur bréf og símskeyti sem hann sendi Von Post á árunum 1953 til 1959. Meðal annars má finna bréf frá forsetanum kvensama til Von Post sumarið eftir að hann giftist eiginkonu sinni, Jacqueline Bouvier.

Upp komst um ástarsamband þeirra Kennedys og Von Post árið 1997 í ævisögu kappans frá sama ári. Hingað til hefur frægasta framhjáhald þessa kvensama forseta verið við leikkonuna Marilyn Monroe sem svipti sig lífi á sjöunda áratugnum.

Flest bréfin sem Kennedy sendi Von Post eru frá árinu 1954 en þá ætlaði Kennedy að ferðast á bát í Evrópu og ná í Von Post í Frakklandi. Aldrei varð úr því þar sem Kennedy meiddi sig í baki og þurfti því að aflýsa bátsferðinni.

Svo virðist sem Kennedy hafi upphaflega kynnst Von Post á frönsku riveríunni árið 1953. Hann var þá 36 ára gamall en hún 21 árs.

Ástarsambandinu lauk þremur árum áður en Kennedy var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1961. Hann var svo skotinn í Dallas eftir að hafa gegnt embættinu í tvö ár.

Hafi einhver áhuga á að bjóða í bréfin má nálgast uppboðið hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×