Innlent

Katrín: Baltasar rosa sætur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín segir að staðið verði við niðurskurðinn en bendir á að reynt hafi verið að koma til móts við kvikmyndagerðarmenn með framlögum úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Mynd/ Stefán.
Katrín segir að staðið verði við niðurskurðinn en bendir á að reynt hafi verið að koma til móts við kvikmyndagerðarmenn með framlögum úr Menningarsjóði útvarpsstöðva. Mynd/ Stefán.
„Mér fannst Baltasar rosa sætur. Hann stóð nú eiginlega alveg upp úr," segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um Edduverðlaunahátíðina sem fram fór um helgina. Hátíðin var hinn allra glæsilegasta.

Á hinn bóginn máttu ríkisstjórnin, Katrín Jakobsdóttir menntmálaráðherra og Páll Magnússon útvarpsstjóri sæta harðrar gagnrýni vegna þess niðurskurðar sem boðaður hefur verið á kvikmyndagerðarmenn. Baltasar tók hins vegar fram að Katrín væri það viðkunnanleg að það væri erfitt að vera henni reiður.

Katrín segist hins vegar gera ráð fyrir að fyrirhugaður niðurskurður muni standa. „Það liggur alveg fyrir að þetta er 23% niðurskurður þó að kvikmyndagerðamenn tali alltaf um 35%," segir Katrín. Ástæðan sé sú að kvikmyndagerðamenn hafi átt von á auknum framlögum. „Hins vegar má segja að við höfum komið til móts með því að kynna að það yrði úthlutað úr Menningarsjóði útvarpsstöðva 40 milljónum, bæði í ár og næsta ár, sem hlýtur nú að skipta máli núna líka," segir Katrín.

Katrín bendir jafnframt á að kvikmyndagerðamenn séu ekki þeir einu sem þurfi að sæta 20% niðurskurði. Bendir hún á Íslensku óperuna máli sínu til stuðnings.

Katrín viðurkennir þó að niðurskurðurinn geti reynst kvikmyndagerðamönnunum erfiður. Það er alveg ljóst að niðurskurður hefur áhrif. Það er alveg eins með íslenska kvikmyndagerð og hvað annað," segir Katrín. Bendir hún til að mynda á að þetta megi sjá í skólum og víðar.

Katrín segist hins vegar hafa talað við kvikmyndagerðamenn sem muni tímana tvenna þegar komi að því að ákveða fjárframlög til íslenskar kvikmyndagerðar. Hún sé þess handviss að niðurskurðurinn núna þýði ekki dauða íslenskrar kvikmyndagerðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×