Innlent

Snjóflóð féll á skíðasvæði

Skíðasvæðið á Siglufirði.
Skíðasvæðið á Siglufirði.

Óvenju stórt snjóflóð féll á skíðasvæðinu á Siglufirði á páskadag og olli skemmdum á mannvirkjum. Nýlega var búið að loka svæðinu þegar flóðið féll og var því engin þar á ferð.

Þetta gerðist um fimmtán mínútur fyrir sjö í gærkvöldi og er flóðið mjög breytt, en ekki mjög djúpt. Það lenti meðal annars á lyftuskúr á milli barnabrautarinnar og svonefndrar T brautar auk þess sem það braut niður sjálfvirka veðurathugunarstöð.

Verið er að meta flóðið, en um þessar mundir er verið að gera áhættumat fyrir skíðasvæðið. Þá féllu tvö snjóflóð á veginn á milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur í gærkvöldi og þurftu björgunarsveitarmenn að aðstoða fólk úr tveimur bílum, sem óku inn í flóðin.

Í morgun féll svo snjóflóð á súðavíkurveg og er hann enn lokaður þar sem vegagerðarmenn geta ekki athafnað sig fyrir óveðri. Ekkert hefur fallið á Óshlíðarveginn svo vitað sé. Hann er engu að síður nánast ófær vegna snjóa. Þá varar Vegagerðin við snjóflóðahættu á Siglufjarðarvegi og beinir því til fólks að vera ekki þar á ferð.

amkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er ekki vitað um fleiri snjóflóð og yfirleitt er ekki mikill snjór í fjöllum á Vestfjörðum, þótt verulega hafi bætt í hann í morgun. Það er hinsvegar meiri snjór í grennd við Ólafsfjörð og Siglufjörð, en ekki er ástæða til þess að óttast að flóð falli niður í byggðirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×