Enski boltinn

Ancelotti mun gefa Terry frí

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, staðfesti eftir leikinn gegn Hull í kvöld að hann muni gefa John Terry frí ef Terry telur sig þurfa á fríi að halda til þess að bjarga hjónabandi sínu. Ancelotti sagði þó að ekki væri búið að taka neina ákvörðun um slíkt líkt og einhverjir fjölmiðlar héldu fram í dag.

„Ef hann þarf frí þá mun ég gefa honum frí. Ef hann þarf ekki á fríi að halda þá mun hann spila gegn Cardiff í bikarnum. Þetta er annars mál okkar Johns, þetta er ekki ykkar vandamál," sagði Ancelotti við blaðamenn í kvöld.

Ancelotti segir að fjölmiðlasirkusinn í kringum Terry hafi ekki haft nein áhrif liðið en hann segist ekki hafa rætt við Terry um málið.

„Nei, við höfum ekki rætt þetta mál. Ég vil gjarna tala við leikmenn mína en ég vil ekki tala um svona hluti. Hvað hann snertir hefur ekkert breyst. Hann spilaði vel og fór fyrir liðinu. Hann leggur sig fram í hverjum leik og andrúmsloftið er það sama. Það hefur ekkert breyst."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×