Innlent

Hefur verulegar áhyggjur af stöðu Íbúðalánasjóðs

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Valli
Lántakendur hjá Íbúðalánasjóði sem eru í greiðsluerfiðleikum geta breytt láni sínu í kaupleigusamning samkvæmt frumvarpi sem ríkisstjórnin afgreiddi á föstudag. Forsætisráðherra hefur verulegar áhyggjur af stöðu sjóðsins.

Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar undir forsæti Sigurðar Snævarr, hagfræðings og efnahagsráðgjafa forsætisráðherra, hefur um helgina verið að reikna út afleiðingar þeirra tillagna sem liggja fyrir um aðstoð við skuldsett heimili.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði fyrir helgi að átta til níu tillögur væru til skoðunar, en líklega væri almenn niðurfærsla skulda ekki inn í myndinni vegna andstöðu fjármálastofnanna og fleiri við þá leið. Hún segir mikilvægt að allir aðilar sem málið snertir komi að lausn vandans, þar með Íbúðalánasjóður þar sem langflestir eru með sín íbúðarlán.

„Ég verð þó að viðurkenna að ég hef áhyggjur af Íbúðalánasjóði. Þar eru veruleg vanskil og sjóðurinn stendur ekki vel. Ef það á að að leggja miklar byrðar á hann þá þurfum við að sjá hvernig við fjármögnum það og það sé gert með þeim hætti að við séum ekki að stefna efnahags- eða fjármálastöðugleikanum í einhverja hættu," segir Jóhanna.



Endurskipulagning mun taka tíma


Íbúðalánasjóður hefur eins og bankarnir leyst til sín fjölda íbúða eftir hrunið, en sjóðurinn getur samkvæmt lögum ekki leigt út íbúðir eins og bankarnir.

Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherra lagði fram frumvarp í ríkisstjórn á föstudag sem ætlað er að koma til móts við lántakendur hjá sjóðnum. Lántakendur í greiðsluerfiðleikum geta breytt láni sínu í kaupleigusamning.

Guðbjartur segir hins vegar liggja fyrir endurskipulagning á öllu húsnæðiskerfinu, en það muni taka lengri tíma. Sérfræðingahópur ríkisstjórnarinnar fundar seinnipartinn í dag og býst forsætisráðherra við að hann skili fyrstu niðurstöðum sínum upp úr miðri vikunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×