Enski boltinn

Liverpool Echo: Hodgson tekur við Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson.
Roy Hodgson. Nordic Photos / Getty Images

Enska dagblaðið Liverpool Echo staðhæfir nú í kvöld að Roy Hodgson verði ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool á morgun, miðvikudag.

Blaðið segir að Liverpool hafi komist að samkomulagi við Fulham um að greiða tvær milljónir punda fyrir samning Hodgson. Viðræður á milli félaganna hafa staðið yfir síðustu daga.

Samkvæmt frétt blaðsins mun Hodgson ávallt hafa verið efstur á óskalista Liverpool, þrátt fyrir áhuga Kevin Dalglish að taka við starfinu.

Aðrir sem voru orðaðir við starfið voru Manuel Pellegrini og Frank Rijkaard.

Hodgson er 62 ára gamall og gegnt fimmtán mismunandi þjálfarastöðum á 35 ára ferli. Hann hefur til að mynda þjálfað Inter og Blackburn.

Hann hóf þjálfaraferilinn í Svíþjóð og var síðast í Noregi frá 2004 til 2005 þar sem hann var þjálfari Viking. Eftir það tók hann við finnska landsliðinu og náði það góðum árangri með liðinu að Fulham ákvað að ráða hann sem knattspyrnustjóra árið 2007.

Undir stjórn Hodgson hefur Fulham náð frábærum árangri og komst til að mynda alla leið í úrslitaleik Evrópudeildar UEFA á tímabilinu þar sem liðið tapaði fyrir Atletico Madrid - sem einmitt sló út Liverpool í undanúrslitum keppninnar.

Hann var nú síðast orðaður við stöðu landsliðsþjálfara Englands en þar þykir Fabio Capello valtur í sessi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×