Enski boltinn

Hodgson: Ég er afar stoltur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Roy Hodgson, nýr knattspyrnustjóri Liverpool.
Roy Hodgson, nýr knattspyrnustjóri Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

Roy Hodgson segir að það hefði ekki verið hægt að hafna Liverpool og að hann sé afar stoltur yfir því að fá að starfa fyrir félagið.

Hodgson var í morgun ráðinn knattspyrnustjóri Liverpool og skrifaði hann undir þriggja ára samning við félagið. Hann sat fyrir svörum á blaðamannafundi nú síðdegis.

Hann segir að það hafi verið erfitt að yfirgefa Fulham en að stýra Liverpool sé hápunkturinn á hans langa ferli.

„Ég er afar stoltur. Félagið býr yfir ríkri hefð bæði hvað varðar knattspyrnuna og knattspyrnustjórana. Það var algerlega ómögulegt að hafna þessu tækifæri."

„Það eru ekki mörg starfstilboð sem gátu fengið mig til að hætta hjá Fulham í hreinskilni sagt. Ég átti mjög gott samstarf við bæði stjórnarformanninn og framkvæmdarstjóra félagsins og það var frábært að vinna með leikmönnunum þar."

„En þegar Liverpool kom til sögunnar bað ég stjórnarformanninn um leyfi til að fá að ræða við félagið. Hann var vissulega ekki of ánægður með það," sagði Hodgson.

„Ég verð að vera hreinskilinn og segja að þetta verður hápunktur minn ferils. Ég hef unnið lengi að komast á þann stað sem ég er á."

Hann segir mikilvægt að halda leikmönnum eins og Steven Gerrard og Fernando Torres hjá félaginu.

„Það er afar mikilvægt. Ég tel að enginn hjá félaginu vilji missa þá. Ég er viss um að félagið geri allt sem í valdi þess stendur til að halda þeim. Ég mun sjálfur reyna að sannfæra þá um að þeir séu á réttum stað."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×