Innlent

Segir vegtoll vera sérstakan skatt á landsbyggðina

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að sér lítist illa á hugmyndir um vegtolla á vegi um allar helstu stofnæðir að Reykjavík. „Þá erum við ekki komin með neitt annað en sérstakan landsbyggðarskatt sem mun leggjast fyrst og fremst á þá sem búa utan Reykjavíkur og þurfa að eiga samskipti við höfuðborgina," segir Höskuldur.

Höskuldur segist hafa setið einn fund af þremur í óformlegri nefnd sem hafi fjallað um málið. Hann hafi ásamt fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, farið fram á að formlega yrði fundað með fulltrúum allra flokka til að fara yfir stöðuna í málinu. Það hafi ekki verið gert. Höskuldur segir því að einungis sé um að ræða hugmyndir samgönguráðherra. Engin samstaða sé um málið á Alþingi.

Ásbjörn Óttarsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í samgöngunefnd Alþingis, segir að engin kynning hafi farið fram á málinu í nefndinni. Úr því hljóti að vera bætt þegar þing kemur saman aftur. Hann segist þó vera hugsi yfir því ef byggja á samgöngumannvirki á Suðurlandi t.d. með vegtollum en svo eigi að byggja mannvirki annarsstaðar, t.d. Héðinsfjarðargöng, án vegtolla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.